„Ég tel að út frá siðferðislegu sjónarmiði þurfi allir að fá bóluefni,“ sagði páfinn sem sagði jafnframt að bólusetningar hefjist í Vatíkaninu í vikunni og að hann hafi sjálfur pantað sér tíma.
Orð páfans um þetta senda skýr og mikilvæg skilaboð til kaþólikka um allan heim, sem eru um 1,3 milljarður, um að bólusetningar séu mikilvægar í baráttunni við heimsfaraldurinn. Bólusetning hans er einnig mikilvæg til að gæta að heilbrigði hans en hann er orðinn 84 ára, hluti af öðru lunga hans hefur verið fjarlægður, hann er ekki hrifinn af því að nota andlitsgrímu og vill helst hitta fólk augliti til auglits.
Páfinn hefur mánuðum saman talað á jákvæðum nótum um þróun bóluefnis gegn kórónuveirunni og sagt bóluefni vera ljósglætu „á myrkum tímum“.
Í viðtalinu sagði páfinn að líklega megi rekja viðhorf hans til bóluefna til æskuára hans þegar lömunarveiki herjaði og mörg börn hafi lamast og þeirrar örvæntingar sem ríkti hjá fólki um að fá bóluefni. „Ég veit ekki af hverju sumir munu segja að bóluefni séu hættuleg. Ef læknar bjóða þér bóluefni sem virkar, sem hefur enga sérstaka hættu í för með sér, af hverju ekki að taka við því?“