BT leitaði svara hjá Rune Hartmann, sem er prófessor í sameindalíffræði og erfðafræði við Árósaháskóla, við þessu. „Það er magnað hversu mikil virkni þess er, þegar maður hefur í huga hversu hratt það var þróað,“ sagði hann um bóluefnið frá Moderna sem ESB hefur nú heimilað notkun á. Rannsóknir hafa sýnt að bóluefnið er með 94,1% virkni.
Hartmann sagði að ekki væri hægt að segja hvort bóluefnið frá Moderna sé betra en bóluefnið frá Pfizer. „Þau eru bæði góð og bóluefnið frá Moderna er jafn gott og bóluefnið frá Pfizer,“ sagði hann.
Þegar hann var spurður hvaða bóluefni hann myndi sjálfur velja, sagði hann: „Ég tek ekki annað þeirra fram fyrir hitt. En ég vil bara fá bóluefni sem hefur verið samþykkt af yfirvöldum í Bandaríkjunum eða ESB. Þeim treysti ég,“ sagði hann og vísaði þar til Sputnik-V bóluefnisins frá Rússlandi og SinoVac frá Kína. Notkun þeirra hefur verið heimiluð í nokkrum ríkjum utan Evrópu.