„Mandela rústaði landinu algjörlega. Nú er það skítatunna. Til helvítis með Mandela. Hann var ekki leiðtogi,“
Segir Cohen að Trump hafi sagt um Mandela sem nú er látinn.
Washington Post skýrir frá þessu og vitnar í nýju bókina sem heitir „Disloyal: A Memoir“ en hún kemur út í dag.
Cohen starfaði árum saman fyrir Trump eða allt þar til hann ákvað að taka afstöðu gegn honum. Cohen afplánar nú þriggja ára fangelsisdóm, meðal annars fyrir að hafa logið að þingnefnd.
„Nefndu eitt land, sem er stýrt af svörtum forseta, sem er ekki skítatunna,“
segir einnig í bókinni.
Talskona Hvíta hússins svaraði þessu með því að velta upp hversu trúverðugur Cohen væri, maður sem hefði verið sviptur lögmannsréttindum og sakfelldur fyrir að ljúga að þinginu. Sjálfur lýsir Trump Cohen sem „rottu“ og lygara.
Í bókinni segir Cohen að Trump sé almennt í nöp við minnihlutahópa. Í kosningabaráttunni 2016 sagði hann að sögn Cohen að hann gæti ekki fengið fólk af latneskum uppruna til að kjósa sig:
„Eins og þeir svörtu eru þeir of heimskir til að kjósa Trump,“
á forsetinn að hafa sagt.