BBC skýrir frá þessu. Mikill hiti var í ríkinu um helgina og það var ekki til að bæta ástandið hvað varðar eldana. Borgaryfirvöld í Los Angeles segja að hitinn þar í borg hafi komist í 49,4 gráður á sunnudaginn.
Reiknað er með að hitinn lækki í dag en það eykur á hættuna á útbreiðslu eldanna að hvasst er í ríkinu.
Rúmlega 14.000 slökkviliðsmenn berjast við eldana um allt ríkið. Á sunnudaginn var rúmlega 200 manns bjargað með þyrlum eftir að fólkið varð innlyksa í miðju eldhafi í norðurhluta ríkisins.
Frá 15. ágúst hafa um 1.000 skógareldar kviknað í Kaliforníu, flestir af völdum eldinga. Átta manns hafa látið lífið og 3.300 byggingar hafa orðið eldi að bráð.