New York Times segir að báðir frambjóðendurnir séu farnir í æfingabúðir til að undirbúa sig sem allra best fyrir kappræðurnar sem geta skipt miklu máli hvað varðar úrslit forsetakosninganna. Fólk mun taka eftir hverju orði þeirra, hverri hreyfingu, raddbeitingu og eiginlega bara öllu. Allt verður þetta síðan greint niður í kjölinn af sérfræðingum.
Donald Trump er 74 ára og Joe Biden 77 ára. Þeir eru elstu forsetaframbjóðendur sögunnar í Bandaríkjunum. Þeir hafa sakað hvorn annan um elliglöp og segja hinn vera ófæran um að sinna forsetaembættinu.
En þeir eiga eflaust erfitt kvöld í vændum þann 29. september þegar fyrstu kappræðurnar fara fram. Þær verða í Cleveland í Ohio og það verður Chris Wallace, frá FoxNews, sem stýrir þeim. Hann þykir einn besti fréttamaður Bandaríkjanna og er óháður. Stjórnmálamenn vita það og að hann gengur hart fram og spyr erfiðra spurninga. Ef viðmælendur hans svara ekki eða reyna að víkja sér undan spyr hann bara aftur þar til hann fær svar.
Næstu kappræður fara fram í Miami í Flórída 15. október og mun Steve Scully, frá C-SPAN, stýra þeim. Sjónvarpsstöðin sendir daglega beint frá Bandaríkjaþingi. Í þessum kappræðum verða gestir í sjónvarpssal og mega þeir spyrja spurninga.
Síðustu kappræðurnar fara fram 22. október í Nashville í Tennessee og mun Kristen Welken, hjá NBC, stýra þeim. Hún er eins og Wallace og Scully þekkt fyrir að ganga hart að viðmælendum sínum.