Nýlega tóku sérfræðingar eftir að lekinn væri orðinn meiri en áður. Bandaríska geimferðastofnunin NASA tilkynnti því nýlega að þeir þrír geimfarar, sem nú dvelja í geimstöðinni, myndu hefja leit að upptökum lekans. Um borð eru tveir Rússar og einn Bandaríkjamaður. Business Insider hefur eftir Daniel Hout, talsmanni NASA, að leitin taki lengri tíma en reiknað var með. Enn væri verið að vinna úr gögnum sem geimfararnir hafa aflað en þeir hafi útilokað flesta hluta geimstöðvarinnar frá því að vera vettvangur lekans.
Lekinn er ekki talinn ógna öryggi geimfaranna eða geimstöðvarinnar en yfirleitt er hægt að bæta upp fyrir leka sem þessa með því að tæma úr stórum tönkum af köfnunarefni og súrefni. En ef lekinn myndi skyndilega færast í aukana er ekki víst að nægur tími vinnist til að dæla úr tönkunum og þá er hætta á ferðum.
Ef neyðarástand skapast geta geimfararnir snúið til jarðar í Soyuz MS-16 geimfarinu sem er í geimstöðinni. Ef ástandið versnar en verður þó ekki að neyðarástandi geta þeir einfaldlega lokað þeim hluta geimstöðvarinnar, sem lekur, af og þannig einangrað hann.