Samkvæmt umfjöllun breska tímaritsins Tatler þá telja tveir af hverjum þremur Bretum að svipta eigi hjónin konunglegum titlum þeirra. Þetta eru niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sem Tatler lét gera. 68% aðspurðra sögðu að binda ætti enda á notkun hjónanna á titlunum hertogi og hertogaynja af Sussex.
Hjónin virðast hin ánægðustu með þessa titla en í upphafi ætluðu þau að byggja upp eigið vörumerki, Sussex Royal, en þær fyrirætlanir voru stöðvaðar af Elísabetu II, ömmu Harry. Ástæðan er að konungsfjölskyldan vill ekki að nafn hennar sé notað í viðskiptalegum tilgangi.
Það þarf kannski ekki að koma á óvart að margir vilji að þau afsali sér titlunum eða verði svipt þeim því nú njóta þau ekki lengur þeirrar velvildar sem konungsfjölskyldan nýtur yfirleitt. Nú verða þau að feta þröngan stíg hvað varðar stjórnmál og annað. Aukin gagnrýni á hjónin er kannski afleiðing þess að fólk telur þau ekki lengur tilheyra konungsfjölskyldunni og því verði þau bara að hegða sér eins og hver annar almennur borgari. Því blasi raunveruleiki hversdagslífsins einfaldlega við þeim núna.