Flestir hafa látist í Bandaríkjunum eða 205.000. Þar á eftir kemur Brasilía með 142.000 látna. Samtals hafa rúmlega 33 milljónir smita verið staðfest á heimsvísu. Líklegt má telja að fjöldi smitaðra og látinna sé hærri því mörg lönd búa ekki yfir nægilegri getu til að taka sýni og skrá dauðsföll rétt.
Kórónuveiran, sem veldur COVID-19, uppgötvaðist í Kína í lok síðasta árs og hefur síðan borist út um allan heim. Evrópa fór illa út úr fyrstu bylgju faraldursins sem skall á af fullum þunga í febrúar og mars. Í vor og sumar fækkaði smitum mikið en á síðustu vikum hefur þeim fjölgað mikið víða í álfunni.
Í Bandaríkjunum hefur gengið illa að ná tökum á faraldrinum og nú fjölgar smitum þar á nýjan leik. Andrew Cuomo, ríkisstjóri í New York, segir áhyggjuefni að smitum fari fjölgandi í ríkinu. Á sunnudaginn voru 53.000 sýni tekin og reyndust 834 vera smitaðir af veirunni. Hann segir að þetta sé lágt hlutfall en samt sem áður sé það áhyggjuefni að smitum fari fjölgandi á ákveðnum svæðum.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO segir að hætt sé við að tvær milljónir manna muni látast af völdum veirunnar ef ekki sé gripið til markvissra aðgerða til að hefta útbreiðslu hennar.