fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Pressan

Nýjar upplýsingar um Estonia geta kollvarpað öllu sem hefur komið fram um orsakir slyssins

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 28. september 2020 07:29

Estonia. Mynd:Pierre Vauthey/ Getty Images

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar farþegaferjan Estonia sökk í Eystrasalti 1994 fórust 852. Þetta er eitt mannskæðasta sjóslys síðari tíma. En getur hugsast að yfirvöld leyni mikilvægum upplýsingum um orsakir slyssins? Eða sinntu þau ekki hlutverki sínu á nægilega góðan hátt? Þetta eru spurningar sem hafa eflaust leitað á marga nú í morgun eftir að norrænir fjölmiðlar birtu nýjar upplýsingar um málið, upplýsingar sem hafa aldrei áður komið fram. Í dag eru einmitt 26 ár síðan hið hörmulega slys átti sér stað.

Í dag hefjast sýningar á nýrri þáttaröð á norrænu efnisveitunni Dplay þar sem kafað er ofan í kjölinn á slysinu og nýjar myndir og gögn eru birt. Óhætt er að segja að ýmsar spurningar vakni eftir þær afhjúpanir sem koma fram í þáttunum.

Stolt Eistlands

Farþegaferjan Estonia var stolt hins nýja Eistlands en ferjan veitti íbúum landsins tækifæri til að komast til nágrannaríkjanna í vestri eftir að landið losnaði undan oki Sovétríkjanna. Ferjan var mikilvæg tenging Tallin við Svíþjóð.

Að kvöldi 27. september 1994 sigldi hún út frá Tallin í átt að Stokkhólmi. Sterkur vindur var og ölduhæð allt að sex metrar. Um borð voru 989 manns, 803 farþegar og 186 manna áhöfn. Um miðnætti voru margir farnir í koju en aðrir sátu á börum og nutu lífsins.

Skyndilega heyrðist einn, og líklega fleiri, hvellur og skipið byrjaði að halla á stjórnborða. Síðan hófst hröð atburðarás. Farþegar sáu sjó flæða inn við káeturnar undir bíldekkinu og frá brúnni var sent út örvæntingarfullt neyðarkall: „Mayday, Mayday“, sem aðrar ferjur á sömu leið heyrðu. Estonia var um 35 km suðaustan við finnsku eyjuna Utö í miðju Eystrasalti.

Hér sökk Estonia. Mynd: Pierre Vauthey/Sygma/Sygma via Getty Images

Tæpri klukkustund eftir að farþegarnir heyrðu hvellina var Estonia horfin af yfirborði sjávar. 852 létust en 137 rak um í björgunarbátum klukkustundum saman á meðan beðið var eftir björgun skipa og þyrla frá Svíþjóð og Finnlandi.

Skýringin

Fljótlega var sagt að gallaður hleri á bógi skipsins hefði rifnað af í ölduganginum og sjór því flætt inn. Alþjóðleg sjóslysanefnd komst að sömu niðurstöðu 1997.

Ákveðið var að lýsa flakið grafreit og því má ekki kafa nærri því. Aðilar að þessu samkomulagi eru Finnland, Eistland, Lettland, Litáen, Rússland, Pólland, Svíþjóð, Danmörk og Bretland.  Flakið liggur á um 85 metra dýpi.

Þyrluáhöfn virðir björgunarbát frá Estonia fyrir sér. Skjáskot/BBC

Ættingjar, þeirra sem létust, kafarar og fólk sem þekkir til slyssins hefur á undanförnum árum sett fram margar athugasemdir við niðurstöðu sjóslysanefndarinnar. Til dæmis segja tveir áhafnarmeðlimir, sem báru ábyrgð á hleranum á bógi skipsins að það gæti ekki verið að hann hefði dottið af eftir hvellinn.

Nýjar upplýsingar

Í dag hefjast sýningar á þáttaröð um slysið hjá Dplay sem er í eigu Discovery. Með aðstoð neðansjávardróna tóku sjónvarpsmenn myndir af flaki Estonia. Á myndunum sést að stórt gat er á stjórnborðshlið skipsins, það er fjórir metrar á hæð og tveir metrar að breidd.

Á vef Aftonbladet er hægt að sjá nokkrar myndir af gatinu.

Í þáttunum kemur fram að þetta gat geti verið skýringin á af hverju ferjan sökk svo hratt og ástæða sé til að efast um að ferjan hafi sokkið vegna fyrrgreinds hlera.

Estonia.

 

 

 

 

 

 

Í þáttunum hafna sérfræðingar þeirri skýringu að sprenging hafi orsakað gatið. Vísindamenn hjá tækniháskólanum í Þrándheimi hafa reiknað út að gatið hafi myndast við utanaðkomandi atburð, til dæmis að meðalstór kafbátur hafi siglt á ferjuna. Ekki er útilokað að um annað farartæki en kafbát gæti hafa verið að ræða.

Í þáttunum er því ekki svarað afgerandi hvort gatið hafi myndast þegar skipið sökk og sé því ekki ástæða þess að það sökk en sérfræðingar telja þá skýringu ekki líklega. Stóra spurningin er því hvort einhver hafi ætlað sér að valda tjóni á ferjunni og hafi því 852 mannslíf á samviskunni?

Dularfullur farmur

Árið 2004 skýrði tollstjórinn í Värtahöfninni í Stokkhólmi að tollverðir hefðu fengið fyrirmæli frá „æðstu stöðum“ um að tollverðir ættu ekki að skoða ákveðinn farm sem yrði fluttur með Estonia. Þetta gerðist til dæmis 14. og 20. september 1994. Seinna kom fram að leynilegasta deild leynþjónustu sænska hersins hafi vitað af smygli af herbúnaði frá fyrrum Sovétríkjunum til Vesturlanda. Að sögn var það breska leyniþjónustan MI6 sem tók við honum.

Vitni á höfninni í Tallin sáu að herbílum var ekið um borð í ferjuna áður en hún lagði upp í sína hinstu ferð. Á þessum árum var lítil stjórn á vopnum og vopnakerfum Sovétríkjanna heitinna. Vitað var að ýmsu var smyglað frá Eystrasaltsríkjunum til Vesturlanda í gegnum Svíþjóð. Einnig hefur komið fram að Rússar hafi varað MI6 við og sagt að þessu smygli yrði að linna strax.

Sænska ríkisstjórnin hefur nú þegar hafnað að nýjar upplýsingar í máli Estonia verði skoðaðar en talsmaður finnsku ríkisstjórnarinnar sagði að myndirnar verði lagðar fyrir sérfræðinga áður en afstaða verður tekin til hvort rannsókna á slysinu hefjist á nýjan leik.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Neyddu drengi til að brjóta kynferðislega á smábarni

Neyddu drengi til að brjóta kynferðislega á smábarni
Pressan
Fyrir 2 dögum

Piers Morgan biður grenjandi vinstri menn vinsamlegast um að halda kjafti – „Ég er kominn með nóg af þessu“

Piers Morgan biður grenjandi vinstri menn vinsamlegast um að halda kjafti – „Ég er kominn með nóg af þessu“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Sakar Joe Biden um að byrja þriðju heimsstyrjöldina áður en pabbi hans tekur við sem forseti

Sakar Joe Biden um að byrja þriðju heimsstyrjöldina áður en pabbi hans tekur við sem forseti
Pressan
Fyrir 4 dögum

Hér þarftu að passa töskuna þína og armbandsúr vel – Þjófagengi fara mikinn

Hér þarftu að passa töskuna þína og armbandsúr vel – Þjófagengi fara mikinn