Samkvæmt frétt CBS þá á ein af hverjum þremur fjölskyldum í vandræðum með að gefa börnum hollan og næringarríkan mat. Þetta eru tvöfalt fleiri en fyrir tveimur árum og fleiri en á tímum fjármálakreppunnar 2007 til 2009.
Ekki er annað að sjá en að staðan muni versna enn frekar. Sérstakri hjálparáætlun sem gefur börnum, sem geta ekki farið í skóla vegna heimsfaraldursins, mat lýkur 30. september. Það er til marks um mikilvægi þessarar áætlunar að 3,9 milljónir barna hafa notið hana og þannig hefur verið tryggt að þau fari ekki svöng í háttinn.
„Fólkið, sem hefur orðið verst úti í heimsfaraldrinum, er lágtekjufólk með börn. Þessar fjölskyldur hafa orðið fyrir öllum hugsanlegum áföllum og það er enga aðstoð að fá,“
er haft eftir Lauren Bauer ráðgjafa hjá The Hamilton Project.
Eins og staðan er núna munu þrjú af hverjum fjórum af 100 stærstu skólaumdæmum Bandaríkjanna halda áfram með fjarkennslu. Þótt að sumir skólar bjóði enn upp á ókeypis máltíðir eiga margir foreldra í erfiðleikum með að nálgast matinn fyrir börnin því þeir eru í láglaunastörfum sem þeir geta ekki yfirgefið til að sækja mat og/eða þeir eiga ekki bíl. CBS News segir að um 20 milljónir bandarískra skólabarna þurfi að reiða sig á ókeypis skólamáltíðir.