Nú eru margir vinir Epstein óttaslegnir vegna rannsóknarinnar og ekki síst í ljósi þess að ríkissaksóknari Bandarísku Jómfrúaeyja hefur lagt fram kröfu um að fá afhenta farþegalista fyrir allan flugflota Epstein en hann átti fjórar þyrlur og þrjár einkflugvélar.
Epstein var fyrir mörgum árum síðan fundinn sekur um barnaníð og dæmdur til vægrar refsingar. Hann hélt brotum sínum áfram og leikur grunur á að hann hafi stundað umfangsmikið og kerfisbundið barnaníð og verið höfuðpaurinn í barnaníðshring.
Mirror og Toronto Sun segja að krafa ríkissaksóknarans hafi valdið miklu fjaðrafoki í vinahópi Epstein en þeir óttast að skýrt verði frá tengslum þeirra við Epstein.
Farþegalisti Boeing 727 flugvélar Epstein þykir sérstaklega spennandi en almenningur nefndi vélina „Lolita Express“. Flugvélin er talin hafa verið notuð til að flytja barnungar stúlkur til Little St. James sem er lítil eyja sem var í eigu Epstein.
David Rogers, flugmaður Epstein, lagði árið 2009 fram farþegalista með athyglisverðum nöfnum. Þar kom fram að Andrew Bretaprins, Bill Clinton, Kevin Spacey og Naomi Campbell hefðu flogið með vél Epstein. Ekki er vitað hvort þau vissu af afbrotum Epstein.