„Eiginmaður minn, John, lifði eftir einni reglu: Ættjörðin fyrst. Við erum Repúblikanar en fyrst og fremst Bandaríkjamenn,“
segir í tilkynningu sem Cindy sendi frá sér á þriðjudagskvöldið.
Um leið og hún lýsti yfir stuðningi við Biden skaut hún föstum skotum á Donald Trump.
„Það er bara einn frambjóðandi í þessum kosningum sem berst fyrir alla landsmenn og það er Joe Biden.“
Í nokkrum tístum á Twitter færir Cindy frekari rök fyrir stuðningi sínum við Biden. Hún segir að þau hafi oft tekist á og verið ósammála en hann sé „góður og heiðarlegur maður“.
„Hann verður yfirmaður sem besti her í heimi getur treyst á af því að hann veit hvernig það er að senda sitt eigið barn í stríð,“
skrifaði Cindy en eiginmaður hennar var verðlaunuð stríðshetja sem var í haldi Víetnama árum saman á dögum Víetnamstríðsins.
Í kosningabaráttunni 2015 sagði Trump að hann liti ekki á John McCain sem stríðshetju því hann „kjósi þá sem ekki eru teknir til fanga“.
Fyrst fréttist af stuðningi Cindy McCain við Biden þegar Biden skýrði frá honum á lokaðri kosningasamkomu. Þar sagði hann að Cindy hefði ákveðið að styðja hann vegna ummæla Trump um fallna bandaríska hermenn en hann er sagður hafa farið neikvæðum orðum um þá.