Ekki eru allir sáttir við þetta og einn íbúi eins hverfisins spurði í samtali við TVE hver tilgangurinn væri með að loka fólk svona inni á svæðunum þar sem það býr en um leið heimila því að fara til vinnu með stappfullum neðanjarðarlestum.
Íbúar í hverfunum mega ekki safnast saman fleiri en sex í einu, hvorki utanhúss né heima hjá sér og öllum almenningsgörðum hefur verið lokað.
Mjög há smittíðni er í hverfunum eða rúmlega 1.000 smit á hverja 100.000 íbúa á síðustu tveimur vikum. Það þýðir að rúmlega 1 af hverjum 100 íbúum hefur greinst með kórónuveiruna á síðustu 14 dögum.
Um 6,6 milljónir búa í Madrid-héraðinu og ná lokanirnar til 13% íbúanna en þessi 13% standa að baki um 24% af smitum i héraðinu. Það eru aðallega fátækustu hverfin sem sæta lokunum nú.
Mörg þúsund manns mótmæltu þessum aðgerðum á sunnudaginn og beindust mótmælin sérstaklega að Ayusu og var hún sökuð um að breiða út hatur og ótta meðal almennings eftir að hún sagði í síðustu viku að aukningu smita megi rekja til „lífshátta innflytjenda“.