Mike Pompeo, utanríkisráðherra, tilkynnti þetta á laugardaginn. Refsiaðgerðirnar tóku gildi á miðnætti í nótt.
Bandaríkjastjórn hefur síðan í ágúst haft í hótunum um að virkja svokallað „snapback“ ákvæði í kjarnorkusamningnum en það heimilar löndunum, sem voru aðilar að samningnum, að taka allar refsiaðgerðir SÞ gegn Íran upp á nýjan leik ef þau telja að Íran standi ekki við skilmála samningsins.
Flest aðildarríki öryggisráðsins telja að Bandaríkin hafi ekki heimild til að gera þetta því Donald Trump, Bandaríkjaforseti, dró Bandaríkin út úr samningnum fyrir tveimur árum. En nú reyna bandarísk stjórnvöld samt sem áður að taka refsiaðgerðirnar upp á nýjan leik.
Pompeo sagði að á næstu dögum kynni Bandaríkjastjórn hvaða aðgerða hún muni grípa til gegn þeim sem „brjóta reglurnar“.