CNN fjallaði nýlega um þetta og benti á að Bloomberg hefði heitið því að gera allt sem hann gæti til að aðstoða við að koma Donald Trump úr Hvíta húsinu. Fjárframlagið í Flórída verður aðallega notað til að kaupa auglýsingatíma í sjónvarpi. CNN segir að með þessu, svona skömmu fyrir kosningarnar geti Bloomberg hugsanlega upp á eigin spýtur stýrt úrslitum forsetakosninganna og breytti sögu Bandaríkjanna.
Fjárframlagið er mjög mikilvægt í Flórída vegna kjörmannakerfisins. Þar eru 29 kjörmenn í boði og ef Biden sigrar og fær þá er nær útséð um að Trump geti sigrað í kosningunum ef miðað er við niðurstöður skoðanakannana þessar vikurnar. Flórída er eitt af höfuðvígum Repúblikana og það er tæplega ein öld síðan Repúblikani sigraði í forsetakosningum án þess að sigra í Flórída.
Í sex af síðustu sjö forsetakosningum réðust úrslitin í Flórída á undir fimm prósentustiga mun. Nýleg skoðanakönnun sýnir að fylgi Trump og Biden í ríkinu er hnífjafnt.
Í ríkinu eru rúmlega 3,5 milljónir skráðra kjósenda sem telja sig óháða. Þessi hópur hefur stækkað um 20% síðan 2016 og getur ráðið úrslitum í kosningunum. Það gæti því dugað til sigurs að herja á þennan hóp og tryggja sér stuðning hans.
Fjárframlagið frá Bloomberg gæti einnig hjálpað Biden að ná til kjósenda af latneskum uppruna en Biden nýtur minni stuðnings meðal þeirra í ríkinu en í öðrum ríkjum. Þessi hópur skiptir miklu máli og því verður auglýsingum væntanlega beint að honum í þeirri von að fá hann til að kjósa.