Það er því ekki ávísun á snarlega lausn á faraldrinum að bóluefni komi fljótlega á markað. Þetta segir Jens Lundgren, prófessor á smitsjúkdómadeild danska ríkisspítalans og við Kaupmannahafnarháskóla, sem er einn helsti sérfræðingur Dana í rannsóknum á COVID-19. A4 Arbejdsliv skýrir frá þessu.
Haft er eftir honum að 2022 verði væntanlega búið að bólusetja svo marga að hægt sé að fara að slaka á þeim hömlum sem hafa verið settar. Það sé þó háð því að þau bóluefni, sem er verið að þróa, reynist virka vel og hafi ekki alvarlegar aukaverkanir í för með sér.
„En það leysir ekki vandann,“
sagði Lundgren.
„Jafnvel þótt bóluefnin verði tilbúin snemma árs 2021 munu þau kannski hafa sjaldgæfar aukaverkanir og því er ekki hægt að bólusetja alla í einu. Við viljum gjarnan bólusetja eldra fólk fyrst en kannski virkar það best á yngra fólk og þá verðum við í staðinn að biðja ungt fólk um að láta bólusetja sig til að vernda eldra fólk,“
sagði hann og bætti við að ef þessi staða komi upp sé nauðsynlegt að fram fari ítarleg umræða um félagslegt lífsviðhorf og hvernig við getum hjálpað hvert öðru.
„Kannski er ekki allt ungt fólk, sem er í lítilli áhættu að fá þennan lífshættulega sjúkdóm, tilbúið til að láta bólusetja sig ef von er á margra daga aukaverkunum,“
sagði hann en vísaði um leið á bug hugmyndum um að til greina komi að neyða fólk til að láta bólusetja sig.