Það var síðdegis þann 9. ágúst 1982 sem hópurinn réðst til atlögu í Rue des Rosiers, sem er gamla gyðingahverfið í París. Þar sátu 55 manns við borð á veitingastaðnum Chez Joe Goldberg. Handsprengju var kastað inn og tveir menn ruddust inn, drógu upp vélbyssur og byrjuðu að skjóta á gestina. Þeir hlupu síðan út aftur og köstuðu annarri handsprengju inn. Á leiðinni út tæmdu þeir úr byssunum á fólk á gangstéttinni. Síðan hurfu þeir í ringulreiðinni. Sex létust og 22 særðust í árásinni.
Norska ríkisútvarpið segir að í frönsku handtökubeiðninni komi fram að sá handtekni, sem er ættaður frá Palestínu, sé grunaður um aðild að ódæðinu og að vitni hafi bent á hann á ljósmyndum sem voru lagðar fram. Franska lögreglan telur að maðurinn hafi verið félagi í hópnum í mörg ár.
Ole-Martin Meland, einn lögmanna mannsins, segir að hann kannist ekki við þetta.
Málsgögn frönsku lögreglunnar byggjast á framburði tveggja fyrrum liðsmanna Abu Nidal-hópsins. Þeir bentu á hinn handtekna og tvo aðra sem eru enn á lífi, annar býr í Jórdaniu og hinn í Palestínu. Vitnunum var heitið sakaruppgjöf og landvistarleyfi í Bretlandi gegn því að þeir beri vitni.