BT fékk aðgang að gögnum ríkislögreglustjóraembættisins um kostnaðinn við gæslu Paludans en hann er ofarlega á óvinsældalista margra múslima en hann og flokkur hans beina spjótum sínum aðallega að múslimum. Lögreglan telur að lífi Paludans sé hætta búin og því nýtur hann sólarhringsgæslu lögreglunnar.
Ef þessum 13,2 milljónum er bætt við kostnaðinn við öryggisgæslu hans á síðasta ári, en þá voru þingkosningar og kosningabarátta sem krafðist aukinnar öryggisgæslu, þá er kostnaðurinn 127 milljónir en það svarar til um 2,7 milljarða íslenskra króna.
Það er leyniþjónusta dönsku lögreglunnar sem annast öryggisgæsluna og nýtur aðstoðar annarra lögregluembætta við hana. Paludan hefur farið víða um Danmörku og mótmælt múslimum. Hann hefur margoft mótmælt í hverfum, þar sem margir múslimar búa, og brennt Kóraninn. Þetta hefur því að vonum skapað honum miklar óvinsældir meðal múslima og morðhótunum hefur rignt yfir hann.
Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar þá fóru 23.400 vinnustundir í gæslu Paludans frá áramótum til loka júlí.
Paludan, sem er menntaður lögfræðingur, hefur átt erfitt með að halda sig innan marka þess sem tjáningarfrelsið heimilar. Á síðasta ári var hann dæmdur fyrir brot á því ákvæði hegningarlaga sem varðar kynþáttaníð og í júní var hann dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir margvísleg brot. Hann var einnig sviptur réttinum til að annast sakamál næstu þrjú ár. Hann áfrýjaði þeim dómi.