Í Danmörku var ungur maður stunginn til bana í Gundsømagle seint í gærkvöldi. Talsmaður lögreglunnar sagði í samtali við Ekstra Bladet að þetta hafi gerst á götu úti. Vitni voru að morðinu en enginn hefur verið handtekinn vegna málsins.
Í Svíþjóð var maður skotinn til bana nærri skóla í Nyköping á tólfta tímanum í gærkvöldi. Tilkynnt var um skothvelli við skólann um klukkan 23.30. Lögreglan fann særðan mann á vettvangi og var hann strax fluttur á sjúkrahús en hann lést af völdum áverka sinna í nótt. Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins en lögreglan leitar að nokkrum grunuðum vegna rannsóknar málsins.
Á ellefta tímanum í gærkvöldi fannst 55 ára karlmaður látinn í fjölbýlishúsi í Märsta. Einn hefur verið handtekinn, grunaður um morðið, og kona var handtekin, grunuð um aðild að morðinu. Talið er að deilur á milli viðkomandi hafi endað með að maðurinn var myrtur.
Í Nyfors í Eskilstuna var maður skotinn til bana á áttunda tímanum í gærkvöldi. Aftonbladet segist hafa heimildir fyrir að skotið hafi verið á hann úr bíl en lögreglan hefur ekki viljað staðfesta það. Maðurinn var fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést skömmu síðar. Mörg vitni voru á vettvangi en enginn hefur verið handtekinn vegna málsins.