Segir stofnunin að erfitt verði að halda aftur af útbreiðslu veirunnar næstu mánuði og vænta megi hækkandi dánartíðni.
Í samtali við AFP sagði Hans Kluge, svæðisstjóri WHO í Evrópu, að vænta megi hækkandi dánartíðni á næstu mánuðum.
„Þetta verður erfiðara. Í október og nóvember munum við sjá hærri dánartíðni,“
sagði hann og bætti jafnframt við „að núna vilja ríkin ekki heyra þessar slæmu fréttir“.
Á undanförnum vikum hefur smitum fjölgað í Evrópuríkjum á nýjan leik, sérstaklega á Spáni og Frakklandi en hjá nágrönnum okkar í Noregi og Danmörku hefur þróunin einnig verið neikvæð.
Á föstudaginn voru rúmlega 51.000 nýsmit staðfest í þeim 55 Evrópuríkjum sem heyra undir WHO. Þetta eru fleiri tilfelli en þegar mest var í apríl.
Hvað varðar andlát af völdum veirunnar þá hefur fjöldi þeirra verið á bilinu 400 til 500 á dag síðan í byrjun júní og hefur fjöldinn haldist stöðugur allan þennan tíma.
Kluge lagði áherslu á að tilkoma bóluefnis muni ekki verða til þess að faraldurinn hverfi.
„Ég heyri það stöðugt. Bóluefni mun binda endi á faraldurinn. Að sjálfsögðu ekki!“
Sagði hann.