The Guardian skýrir frá þessu. Einnig kemur fram að ágúst hafi verið sá næsthlýjasti frá upphafi mælinga en þær hafa staðið yfir í 141 ár. NOAA segir að tölurnar þýði að 2020 sé á góðri leið með að verða eitt af hlýjustu árunum frá upphafi mælinga.
Tímabilið frá janúar og út ágúst er það hlýjasta frá upphafi mælinga í Evrópu, Asíu og Karabískahafinu en það næsthlýjasta í Suður-Ameríku.
Sumarið var einstaklega hlýtt á vissum svæðum og má þar nefna að í norðanverðu Rússlandi var meðalhitinn tveimur gráðum yfir meðaltali. Sömu sögu er að segja frá suðvestur- og norðausturhluta Bandaríkjanna. Í norðurhluta Asíu var meðalhitinn í júní, júlí og ágúst þremur gráðum yfir meðaltali.
Á norðurheimskautasvæðinu var sömu sögu að segja. Á Svalbarða var hlýjasta sumar sögunnar frá upphafi mælinga og mældist til dæmis rúmlega 21 gráðu hiti þar dag einn í júlí.