Der Spiegel segir að öryggisgæslan í kringum Navalny hafi verið aukin til muna. Fram kemur að reikna megi með að Navalny muni geta rifjað upp hvað gerðist daginn örlagaríka en sú frásögn getur verið hættuleg fyrir þá sem stóðu að baki morðtilrauninni.
Samkvæmt frétt Die Zeit þá hafa sérfræðingar þýska hersins komist að þeirri niðurstöðu að sú útgáfa novichodk, sem Navalny var byrluð, sé ný og öðruvísi en sú sem Skripal-feðginunum var byrluð 2018. Ný útgáfan er sögð vera hægvirkari en eldri útgáfur en hins vegar kvalafyllri og banvænni.
Þýskir læknar telja að Navalny hefði látist um borð í flugvélinni, sem hann var í þegar hann veiktist, ef flugstjórinn hefði ekki brugðist svo snarlega við og lent á næsta flugvelli og ef læknarnir á sjúkrahúsinu í Omsk í Síberíu hefðu ekki samstundis gefið honum mótefnið atropin.
Þýskir sérfræðingar eru sannfærðir um að morðtilræði á borð við þetta þar sem svo banvænt og flókið eitur er notað geti aðeins hafa verið framkvæmt af rússneskri leyniþjónustu, líklegast leyniþjónstu hersins. Talið er að útsendari leyniþjónustunnar hafi sett eitrið í te Navalny eða smurt því á tebollann hans á meðan hann beið á flugvellinum.