Berlingske segir að fjölskylduglæpagengi herji í viðkvæmum íbúðarhverfum. Þetta staðfestir Henrik Søndersby yfirmaður rannsóknarmiðstöðvar ríkislögreglunnar. Hann sagði að lögreglan viti að afbrot séu það sem líf nokkurra fjölskyldna snýst um og sé mikilvæg fjáröflunarleið fyrir þær. Líklega sé um fáar fjölskyldur að ræða en það þýði þó ekki að einstaka meðlimir þeirra geti ekki framið mörg afbrot á skömmum tíma.
Nokkur umræða hefur verið um mál sem þessi að undanförnu í Danmörku eftir fréttaflutning af átökum tveggja fjölskyldna á Motalavej í Korsør. Þar búa tvær arabískar fjölskyldur sem deila hart og halda götunni nánast í heljargreipum. Átök þeirra og deilur eiga rætur að rekja allt aftur til níunda áratugarins þegar þær voru í flóttamannabúðum í Líbanon. Fjölskyldurnar hafa slegist, stundað fíkniefnaviðskipti og beitt skotvopnum svo eitthvað sé nefnt.
Í Óðinsvéum fara glæpagengi mikinn í Vollsmose en í Árósum láta þau mest að sér kveða í vesturhluta borgarinnar.