„Frá og með 14. september munu bandarísk stjórnvöld falla frá kröfum um að allir farþegar frá ákveðnum löndum fari í skimun á 15 völdum flugvöllum,“
segir á heimasíðu smitsjúkdómastofnunar landsins, CDC. Fram kemur að nú sé sérstakt eftirlit haft með farþegum frá Kína, Íran, Schengensvæðinu, Bretlandi, Írlandi og Brasilíu. Segir stofnunin að skimun gagnist ekki svo mikið því margir séu einkennalausir. Ekki sé þó útilokað að smit berist á milli farþega frá þeim sem eru einkennalausir eða hafa ekki þróað með sér sjúkdómseinkenni. Af þessum sökum breyti CDC nú um aðferðafræði og leggi meiri áherslu á aðra heilsuverndarþætti til að draga úr smithættu á ferðalögum. Ferðamönnum mun þó áfram standa til boða að fara í sýnatöku.