Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Microsoft sendi frá sér í gær.
„Þær aðgerðir, sem við skýrum frá í dag, sýna greinilega að erlendir hópar hafa aukið tilraunir sínar í tengslum við kosningabaráttuna,“
segir í tilkynningunni.
Fram kemur að hópur rússneskra tölvuþrjóta, sem stóð að baki stórrar árásar á tölvukerfi Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar 2016, hafi gert stórar árásir að undanförnu. Um er að ræða hópinn Fancy Bear sem er einnig þekktur sem Strontium eða ATP28.
Bandarískar leyniþjónustustofnanir segja að hópnum sé stýrt af leyniþjónustu rússneska hersins.
Að þessu sinni hefur hópurinn beint spjótum sínum að bæði Demókrötum og Repúblikönum og ráðgjöfum sem starfa fyrir flokkana og einstaka frambjóðendur. Microsoft segir að hópurinn hafi ráðist á 200 aðila að undanförnu, margir þeirra tengjast kosningunum beint eða óbeint.