Kate Brown, ríkisstjóri, óttast að eldarnir geti orðið þeir verstu í sögu ríkisins hvað varðar manntjón og tjón á fasteignum. Hún hefur ekki farið nákvæmlega í saumana á hugsanlegt umfang tjónsins en einn af verstu skógareldunum í ríkinu var 1936 en þá létust 13 og bærinn Brandon brann til grunna.
Slökkviliðsmenn berjast við fjölda skógar- og gróðurelda í ríkinu. Margir hafa flúið heimili sín en aðrir eru innikróaðir af eldum og komast ekki á brott.
Sterkar vindhviður auka enn á útbreiðslu eldanna og stundum er fólki fyrirskipað að yfirgefa heimili sín samstundis þannig að það hefur aðeins nokkrar mínútur til að koma sér á brott og verður að skilja allt sitt eftir.
Brown sagði í gær að slökkviliðsmönnum haft tekist að bjarga fólki með því að draga það yfir ár.
Eldarnir ná einnig yfir til Washington en sjaldgæft er að svo miklir skógareldar logi í þessum tveimur ríkjum því þar er loftslagið svalara og rakara en sunnar.
Kalifornía hefur einnig farið illa út úr skógareldum að undanförnu en þeir hafa nú teygt sig yfir 8.900 ferkílómetra. Að minnsta kosti 11 hafa látist þar síðustu þrjár vikur og um 3.300 hús hafa eyðilagst.