Samkvæmt frétt Sky þá gæti hitamet ársins, sem var sett síðasta föstudag, fallið í dag eða um helgina. Það er 37,8 stig og mældist á Heathrow. Þetta er jafnframt þriðji hæsti hiti sem mælst hefur á Bretlandi frá upphafi mælinga.
Heilbrigðisyfirvöld hvetja fólk til að sýna aðgæslu í þessum mikla hita og vanmeta ekki áhrif hitabylgjunnar. Aðvörunum er sérstaklega beint að eldra fólki sem er hvatt til að gæta þess að ekki verði of heitt í húsum þeirra og hafa glugga lokaða og dregið fyrir.
Reiknað er með að fólk muni þyrpast á strendurnar til að njóta veðursins og óttast yfirvöld að það muni leiða til aukningar á kórónuveirusmitum.