New York var í apríl miðpunktur kórónuveirufaraldursins í Bandaríkjunum en þar greindust yfir 1.000 ný smit daglega. Í heildina hafa um 23.000 látist af völdum kórónuveirunnar í borginni. En með ströngum reglum hefur tekist að halda smitinu niðri en smitlaus er borgin ekki. Í gær byrjaði lögreglan að setja upp vegatálma við brýr og göng sem liggja til Manhattan. Ökumenn verða stöðvaðir tilviljanakennt til að kanna hvort í bílum þeirra sé fólk sem er frá ríkjum þar sem mikið smit er þessa dagana.
Eins og staðan er í dag eru 34 ríki og Púertó Ríkó á lista yfir ríki þar sem mikið smit er. Fólk, sem kemur til New York frá þessum ríkjum, á að fara í 14 daga sóttkví. Reglurnar gilda einnig fyrir íbúa í New York sem koma frá þessum ríkjum.
„Ef maður kemur hingað er nauðsynlegt að fara í sóttkví. Það er ekki frjálst val. Við viljum ekki sekta ykkur eða refsa. Við viljum hjálpa ykkur að fara í sóttkví. En ef þið virðið ekki lögin okkar munum við refsa ykkur.“
Sagði de Blasio að sögn Politico.
Fimmta hvert nýtt smit í borginni kemur upp í tengslum við komu gesta til hennar.