Þeir hafa komist að því að með því að mála augu á afturenda kúa er hægt að vernda þær fyrir ljónum. Þeir hafa gert þessar tilraunir í Afríku enda engin ljón í ástralskri náttúru. Rannsóknir þeirra fóru því meðal annars fram í Botsvana en þar glíma bændur við árásir ljóna á kúahjarðir. Bændurnir skjóta oft ljónin og það vilja menn forðast því ljón eru í útrýmingarhættu. Hugsunin á bak við augun á afturendanum er því að koma í veg fyrir að ljónin verði skotin.
Vísindamennirnir prófuðu þessa hugmynd sína á fjögurra ára tímabili. Þeir máluðu augu á afturenda 683 kúa, á 543 var málaður kross og á 835 var ekkert málað. Frískað var upp á augun og krossana með nýrri málningu á rúmlega þriggja vikna fresti.
Á þessum fjórum árum réðust ljón aldrei á kýrnar með augun á afturendanum. Fimmtán, ómálaðar kýr, voru hins vegar drepnar af ljónum.
Vísindamennirnir telja að krossinn hafi einnig hugsanlega haft fælingarmátt því ljón réðust aðeins á fjórar kýr, með krossa á afturendanum, á þessum fjórum árum.
Þeir vita ekki með vissu af hverju ljónin forðast kýrnar með augun á afturendanum en telja að líklegast sé að ljónin telji að það hafi komist upp um þau þegar þau sjá máluðu augun.
Niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið birtar í vísindaritinu Communcations Biology.