VG skýrir frá þessu. Fram kemur að lögreglan hafi reynt að kortleggja síðustu mínúturnar og byggi vinnan á yfirheyrslum og sviðsetningu. Lögreglan lagði hald á heimili Hagen-hjónanna fyrir nokkrum mánuðum og hefur enginn sakamálavettvangur í Noregi verið rannsakaður jafn vel og húsið. Nú vill Tom Hagen, eiginmaður Anne-Elisabeth, fá húsið aftur til umráða og hefur dómstóll úrskurðað að lögreglunni beri að afhenda honum húsið þann 21. september. Tom liggur undir grun um að eiga aðild að hvarfi Anne-Elisabeth og andláti hennar en lögreglan gengur út frá því að hún sé ekki lengur á lífi.
Vitað er að Anne-Elisabeth fór á fætur um klukkan 7 þennan örlagaríka dag. Hún ræddi við son sinn í síma klukkan 9.14 og slökkt var á síma hennar klukkan 10.07 og hann skilinn eftir í húsinu.
VG segir að appið „Sundhed“ skrái fjölda skrefa og þrepa sem eru gengin. Í appinu svara 16 þrep til um þriggja metra hæðarbreytingar. VG segist hafa upplýsingar um að skráninguna í app Anne-Elisabeth megi túlka á þann veg að um skyndilega hreyfingu hafi verið að ræða eða jafnvel fall niður stiga.
Lögreglan telur að sá hraði sem appið skráði sé svo mikill að Anne-Elisabeth geti ekki hafa komist gangandi niður stiga á þessum hraða. Sönnunargögn, sem fundust í húsinu, virðast styðja við þessa kenningu því blóð úr Anne-Elisabeth fannst á veggnum við stigann upp á fyrstu hæð.
Svein Holden, lögmaður Tom Hagen, sagðist í samtali við VG vera jákvæður í garð þessarar rannsóknar.
„Þetta markar tímamót, myndi ég segja. Rannsóknirnar geta veitt nytsamar upplýsingar og við viljum komast að hvað varð um Anne-Elisabeth, svo þetta er jákvætt.“