New York Times skýrir frá þessu og hefur eftir starfsmanni Facebook. Blaðið segir að starfshópur, undir forystu Mark Zuckerberg, forstjóra og aðaleiganda Facebook, fundi daglega til að fara yfir hugsanlegar sviðsmyndir. Ein þeirra sem hefur verið fjallað um er að Trump og kosningateymi hans lýsi hann sigurvegara á samfélagsmiðlum þótt hann tapi.
Önnur sviðsmynd sem er til umfjöllunar er hvernig á að bregðast við ef Trump ræðst á bandarísku póstþjónustuna og sakar hana um að hafa týnt atkvæðum en með þessu getur hann vakið upp efasemdir um niðurstöðurnar.
Hjá Facebook er einnig verið að íhuga að setja upp svokallaðan „kill switch“ sem getur lokað á allan pólitískan áróður eftir kjördag ef úrslitin verða ekki afgerandi. Talið er að líkurnar á því hafi aukist vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar því mun fleiri munu kjósa bréfleiðis en nokkru sinni áður. Það mun því taka drjúgan tíma að telja öll atkvæðin og ljóst er að talningu lýkur ekki á kjördag eða kosninganótt.