Mirror segir að Chang Song-min hafi sagt þetta í samtali við suður-kóreska fjölmiðla og telji að leiðtoginn sé í dauðadái en sé enn á lífi. Hann sagði að ekki hafi verið búið að ákveða hver taki við þegar hann deyr og því hafi systir hans fengið aukin völd til að fylla upp í það tómarúm sem muni myndast því það geti ekki gengið lengi að hafa tómarúm.
Kim Jong-un hefur aðeins sést nokkrum sinnum á árinu og hefur það kynnt undir hugleiðingum um að hann sé látinn. Síðasta opinbera myndin af honum var að sögn tekin 19. ágúst. Fyrr á árinu var talið að hann hefði gengist undir hjartaaðgerð og hefði ekki lifað hana af. En þær sögusagnir voru slegnar út af borðinu þegar hann birtist við opnun áburðarverksmiðju í Suchon. En ef hann er ófær um að stýra landinu gæti það haft hörmulegar afleiðingar fyrir þjóðina að mati sumra.
Chris Mikul, sem skrifaði „My Favourite Dictators“ á síðasta ári segir að Kim Jong-un sé hugsanlega „velviljaðasti“ leiðtoginn til að stýra landinu og það þrátt fyrir að vera „grimmur einræðisherra“. Hann segir að þetta byggi hann á að leiðtoginn hafi tekið ástfóstri við tölvuleiki og körfubolta þegar hann gekk í skóla í Sviss og þar hafi hann „orðið vestrænn“. Þetta hafi í för með sér að hann sé nokkuð stöðugur leiðtogi og hafi sýnst hafa „smá áhyggjur af velferð“. Hann hafi meðal annars látið standa fyrir ókeypis tónlistarviðburðum fyrir almenning.