Í skýrslunni kemur fram að síðustu sex ár hafi leyniþjónustan leynt TET upplýsingum eða veitt rangar upplýsingar um starfsemi sína. Meðal annars leyndi leyniþjónustan því að hún hefði njósnað um danska ríkisborgara og aðstoðað aðra við að afla upplýsinga um þá. Einnig virðist leyniþjónustan hafa beitt ólöglegum aðferðum við störf sín.
Óhætt er að segja að stjórnmálamenn hafi ekki tekið þessum fréttum vel og krefjast margir hverjir ítarlegrar rannsóknar á málinu og hreinsana hjá leyniþjónustunni.
Dennis Flydtkjær, fulltrúi Danska þjóðarflokksins í leyniþjónustunefnd þingsins, sagði í samtali við Jótlandspóstinn að ef rétt reynist sé um sérstaklega gróft mál að ræða og það verði að fylgja því eftir, bæði pólitískt og með brottrekstri. Það sé næstum enn alvarlegra að leyniþjónustan hafi, að því er virðist, njósnað um danska ríkisborgara eða hjálpað öðrum að komast yfir gögn um Dani.
Karina Lorentzen Dehnhardt, fulltrúi SF í nefndinni, tók í sama streng og sagðist vera brugðið vegna málsins. Málið sé til þess fallið að grafa undan trausti á leyniþjónustustofnunum landsins.