The Mirror skýrir frá þessu. Fram kemur að hryllilegir dauðdagar tvennra hjóna í Wilmslow í Cheshire séu nú rannsakaðir sem morð. Einnig hafi málin vakið upp áhyggjur um að fleiri hrottalegir dauðdagar eldra fólks á svæðinu síðustu áratugi gætu hafa verið morð en fram að þessu hefur verið talið að í málunum hafi annað hjónanna myrt hitt og síðan tekið eigið líf.
Í þessu sambandi eru annars vegar nefnd hjónin Howard og Bea Ainsworth og hins vegar Donald og Auriel Ward. Bæði hjónin voru sögð hafa verið hamingjusöm og komu andlát þeirra á óvart. Í báðum málum var komist að þeirri niðurstöðu að eiginmennirnir hefðu myrt konur sínar og síðan tekið eigin líf. Þetta kom ættingjum þeirra og vinum algjörlega í opna skjöldu. Í báðum málunum fundust hjónin í eigin rúmum, þau voru í náttfötum og var blóð úti um allt. Allt bar þess merki að hrottalegu ofbeldi hefði verið beitt. Ekki var vitað til þess að eiginmennirnir hefðu nokkru sinni beitt konurnar ofbeldi.
The Sunday Times segir að nú séu uppi miklar áhyggjur um að hugsanlega hafi morðingi verið að verki og hafi honum tekist að dylja slóð sína vel og blekkja lögreglunnar. Sumir sérfræðingar eru sagðir telja hugsanlegt að sami aðili hafi verið að verki og hér sé því raðmorðingi á ferð.
Þrjú önnur álíka mál hafa einnig verið tekin til rannsóknar á nýjan leik og er ekki talið útilokað að í þeim hafi raðmorðingi verið að verki.