Þá braust hann inn á Al Lang Stadium í St. Petersburg í Flórída. Þetta er leikvangur Tampa Bay Rowdies fótboltaliðsins. Leikvangurinn tekur 7.200 gesti. En knattspyrnan hefur verið í hléi í Bandaríkjunum vegna heimsfaraldursins og því var enginn sem tók eftir að Neja braust inn og hvað þá að hann settist að í lúxussvítu á leikvanginum.
Hann dvaldi í svítunni í 14 daga. Hann lagði einnig leið sína í minjagripaverslun félagsins og varð sér úti um fatnað frá toppi til táar. Einnig varð hann sér úti um mat og drykk á leikvanginum sem var opinn fyrir starfsfólk.
Það var ekki fyrr en hreingerningafólk fór inn í svítuna, sem hann dvaldi í, að það uppgötvaðist að einhver hélt til þar. Ljóst var að einhver hafði hreiðrað um sig, sængurfatnaður hafði verið færður til og rakáhöld voru uppi við.
Neja var handtekinn í framhaldinu. Í handtökuskýrslunni kemur fram að hann hafi stolið varningi fyrir sem nemur um 130.000 íslenskum krónum og veitingum fyrir sem nemur um 30.000 íslenskum krónum.
Mánuði áður en þetta gerðist játaði Neja að hafa brotist inn í Lutz grunnskólann. Ástæðuna sagði hann vera að hann hafi verið svangur og hafi verið í leit að mat.