Hollywoodstjarnan Sharon Stone lætur nú að sér kveða í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum sem fara fram í byrjun nóvember. Hún sakar Donald Trump, sitjandi forseta, um að bera ábyrgð á dauða ömmu hennar.
Á upptökum, sem voru birtar á Instagram og YouTube, segir Stone, sem er greinilega mjög þreytt, áhyggjufull og óförðuð, að kórónuveiran hafi farið illa með fjölskyldu hennar í Montana. Í upptökunni ræðst hún harkalega á viðbrögð Trump og stjórnvalda við heimsfaraldri kórónuveirunnar.
„Þeir halda áfram að segja að hættan sé lítil og að maður deyi kannski ekki. En í fjölskyldunni minni lést amma mín af völdum COVID-19, guðmóðir mín er dáin og systir mín og maðurinn hennar berjast fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi og systir mín hefur það ekki gott.“
Hún sakar yfirvöld um að hafa gert mistök og segir að í Montana sé ekki hægt að fara í sýnatöku nema maður sé með einkenni smits. Niðurstaðan komi svo ekki fyrr en fimm dögum síðar.
Stone segir að þetta hafi valdið því að móðir hennar, sem er hjartveik og hafi fengið tvö hjartaáföll á síðustu fimm mánuðum, hafi ekki fengið að fara í sýnatöku því hún hafi ekki verið með einkenni kórónuveirusmits.
Hún segir að hjúkrunarfræðingar, sem hætta lífi sínu til að bjarga öðrum, geti heldur ekki farið í sýnatöku því kerfið ráði ekki við það. Hún saka jafnframt þá, sem neita að bera andlitsgrímur, um að stefna lífi fólks í hættu.
„Fólk deyr og berst fyrir lífi sínu því það eru ekkert nema lygar. Það eina, sem getur breytt stöðunni, er að kjósa Joe Biden og Kamala Harris. Með konur við stjórnvölinn munum við berjast fyrir fjölskyldur okkar og sjá til þess að allir geti farið í sýnatöku. Einu löndin sem hafa staðið sig vel í heimsfaraldrinum eru lönd þar sem leiðtogarnir eru konur.“
Hún lýkur orðum sínum á að hvetja fólk til að kjósa, svo lengi sem það kýs ekki Donald Trump.
„Verið svo góð að kjósa. En hvað sem þú gerir, ekki kjósa morðingja.“