Jótlandspósturinn skýrir frá þessu. Fram kemur að byrjað verði að taka við skráningum í upphafi næsta árs. Enn er unnið að gerð áætlunar um herdeildina, starf hennar og fjölda en reiknað er með að um 120 manns verði í henni að sögn John Boye Rasmussen, næstráðanda heimskautadeildar danska hersins. Meðlimirnir eiga að kunna grænlensku og búa yfir góðri staðarþekkingu.
Danska ríkisstjórnin sagði 2016 að Grænland ætti að vera með sitt eigið heimavarnarlið sem lyti stjórn heimskautadeildar danska hersins. Fyrirmyndin var sótt í svipaða herdeild Kanadamanna.
Heimsskautadeild danska hersins ber ábyrgð á vörnum Grænlands og Færeyja auk þess að annast eftirlit á hafsvæðunum í kringum löndin og stýra leitar- og björgunarstörfum.