TV2 skýrir frá þessu og segist hafa upplýsingar um hvað stóð í skilaboðunum sem voru send þann 25. október 2018. Anne-Elisabeth hvarf af heimili sínu þann 31. október 2018.
Í skilaboðunum gaf Anne-Elisabeth í skyn að Tom hafi ekki sýnt brúðkaupsafmæli þeirra mikinn áhuga en þau höfðu verið gift í 49 ár. Hún sagði að þeim hafi verið boðið í mat en Tom hafi ekki haft mikinn áhuga á að þiggja það boð. Hún gaf einnig í skyn að Tom væri ekki sáttur í hjónabandinu.
Svein Holden, verjandi Tom, sagði í samtali við TV2 að hjónin hafi haldið upp á brúðkaupsafmælið með góðum kvöldmat hjá dóttur sinni. Þau hafi síðan ætlað í utanlandsferð viku seinna í tilefni af tímamótunum.
Skilaboðin voru meðal þeirra gagna sem lögreglan lagði fram fyrir dómi þegar hún reyndi að fá Tom úrskurðaðan í gæsluvarðhald en lögreglan telur að hann hafi staðið á bak við hvarf Anne-Elisabeth og morðið á henni en lögreglan telur fullvíst að hún hafi verið myrt.
Hvorki lögreglan né lögmaður Anne-Elisabeth vildu tjá sig um skilaboðin.
Vinkona, sem fékk skilaboðin, hefur verið yfirheyrð af lögreglunni og sagði þá að hjónaband Anne-Elisabeth og Tom hafi virst vera erfitt og töluverð átök í því.
Lögreglan telur sig vita af hverju Anne-Elisabeth var myrt en hefur ekki viljað skýra frá ástæðunni. TV2 segir að lögreglan hafi eytt miklum tíma í að afla gagna um átök og ósætti í hjónabandinu, jafnvel áratugi aftur í tímann.