Eins og staðan er núna er fólki eingöngu skylt að nota andlitsgrímur þegar það notar almenningssamgöngur í Árósum og nokkrum sveitarfélögum á austanverðu Jótlandi en þar er hefur fjöldi kórónuveirusmita greinst að undanförnu.
Fulltrúar þingflokkanna hittust í gær og ræddu næstu skref í baráttunni við útbreiðslu kórónuveirunnar og var niðurstaðan meðal annars að nú verði skylt að nota andlitsgrímur í öllum almenningssamgöngum í Danmörku.
Ekki liggur ljóst fyrir hvenær þessi krafa tekur gildi en Frederiksen mun kynna það á fundinum í dag að sögn danskra fjölmiðla.
Gripið er til þessara aðgerða vegna töluverðrar aukningar á smitum að undanförnu en fram að þessu hafa heilbrigðisyfirvöld ekki krafist þess að andlitsgrímur séu notaðar og það var fyrst fyrir nokkrum dögum sem þau mæltu fyrst með notkun þeirra við ákveðnar aðstæður.
Að undanförnu hafa sífellt fleiri notendur almenningssamgangna byrjað að nota andlitsgrímur af fúsum og frjálsum vilja miðað við kannanir dönsku járnbrautanna og í neðanjarðarlestunum í Kaupmannahöfn. Í neðanjarðarlestunum var hlutfall farþega, sem nota andlitsgrímur, komið upp í 25% á föstudaginn úr um 5% fyrir nokkrum dögum.