Grenon er sjálfútnefndur erkibiskup í eigin kirkju í Flórída að sögn AP News.
Grenon og þrír synir hans voru ákærðir fyrir um mánuði síðan fyrir að hafa selt lyf, sem er ekki viðurkennt af heilbrigðisyfirvöldum, og getur verið lífshættulegt. Efnið, sem um ræðir, er kröftugt klórefni sem er aðallega notað við textílframleiðslu.
Grenon-fjölskyldan hafði markaðssett lyfið sem „kraftaverka-kúr“. Grenon hélt því fram að það læknaði nær alla sjúkdóma, þar á meðal COVID-19, krabbamein, HIV/AIDS og einhverfu.
The Guardian skýrði fyrir nokkru frá því að fjölskyldan hefði sent Donald Trump, forseta, bréf og hvatt hann til að nota efnið í baráttunni gegn kórónuveirunni. Nokkrum dögum síðar kynnti Trump efnið sem hugsanlega lækningu við kórónuveirunni.
Feðgarnir verða framseldir til Bandaríkjanna innan skamms en þeir eiga allt að 17 ára fangelsi yfir höfði sér.