Umrætt kerfi skráði hversu miklum tíma starfsfólkið varði við skrifborð sín og sendi aðvaranir til þeirra sem tóku of langar pásur. Strax í upphafi var kerfið gagnrýnt harðlega og neyddust stjórnendur bankans til að tilkynna að virkni kerfisins yrði breytt þannig að það myndi ekki skrá persónurekjanlegar upplýsingar.
Nú er ICO að fara ofan í kjölinn á hvernig kerfið virkar og þeim aðferðum sem er beitt til að tryggja framleiðni starfsmanna bankans. Reuters hefur eftir talsmanni ICO að fólk vænti þess að það geti haft einkalíf sitt út af fyrir sig og að það eigi einnig ákveðinn rétt á einkalífi í vinnunni. Talsmaðurinn sagði að vöktun á starfsfólki þurfi að vera gagnsæ og starfsfólkið verði að fá upplýsingar um umfangið.