17 manns voru handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna rannsóknar málsins. Í reiðskólanum fannst vel útbúin fíkniefnaverksmiðja. Samkvæmt The Guardian þá er þetta stærsta fíkniefnaverksmiðjan sem fundist hefur í Hollandi. Þar var hægt að framleiða 200 kíló af kókaíni á dag. Söluverðmæti slíks magns hleypur á hundruðum milljóna íslenskra króna.
Það voru þungvopnaðir lögreglumenn sem réðust til atlögu við reiðskólann á föstudaginn. Þeir notuðust við brynvarinn bíl við aðgerðina. Það var þó ekki fyrr en á þriðjudaginn sem lögreglan skýrði frá aðgerðinni og birti meðfylgjandi myndir frá reiðskólanum.
13 hinna handteknu eru kólumbískir ríkisborgarar, þrír eru hollenskir ríkisborgarar og einn er tyrkneskur. 64 ára Hollendingur, sem er talinn eigandi reiðskólans, er meðal hinna handteknu. Lögreglan lagði hald á mikið af tækjum og tólum til fíkniefnaframleiðslu auk efna sem tengjast slíkri framleiðslu.