Gleraugun verða boðin upp þann 21. ágúst hjá East Bristol Auctions í Bretlandi að sögn Sky. Gleraugun voru sett í póstkassa uppboðshússins og ráku starfsmenn upp stór augu þegar þeir opnuðu umslagið og fundu gleraugun og miða sem á stóð:
„Þessi tilheyrðu Gandhi, hringdu í mig.“
Fyrsta skrefið var að staðfesta að gleraugun hefðu í raun tilheyrt Gandhi. Eftir nokkur samtöl og upplýsingaöflun lá ljóst fyrir að hér var um gleraugu hans að ræða og því um nokkuð sögulegan fund að ræða.
Næsta skref var að hringja í þann sem hafði sett gleraugun í póstkassann og segja honum að hann gæti hugsanlega fengið 15.000 pund, sem svara til um 2,6 milljóna íslenskra króna, fyrir þau á uppboði.
Eigandi gleraugnanna sagði starfsfólki uppboðshússins að þau hefðu verið í eigu frænda hans sem starfaði í Suður-Afríku á milli 1910 og 1930 en Gandhi bjó þar frá 1893 til 1914 en þar starfaði hann sem lögmaður indversks kaupsýslumanns. Gandhi gaf að sögn frændanum gleraugun eftir að hann hafði hjálpað Gandhi. Þau hafa síðan gengið í arf innan fjölskyldunnar.