VG skýrir frá þessu og segir að aðalástæðan sé að fingraför Tom hafi ekki fundist á umslaginu en það telur lögreglan undarlegt miðað við að hann hafi tekið umslagið upp og opnað það samkvæmt eigin frásögn. VG segir að lögreglan hafi kenningu um að þetta geti bent til að bréfið hafi aldrei verið í umslaginu eins og Tom segir. Lögregluna grunar að hann hafi staðið á bak við hvarfið og morðið á Anne-Elisabeth en lögreglan telur fullvíst að henni hafi verið ráðin bani.
Svein Holden, lögmaður Tom, er ekki sammála því að það skipti máli að fingraför Tom séu ekki á umslaginu og segir það hafa „núll sönnunargildi“. Fjöldi sérfræðinga, sem VG ræddi við, er sama sinnis.
Einn þeirra, Per Angel, sem var áður sérfræðingur og yfirmaður hjá norsku ríkislögreglunni Kripos, sagði að ekki væri hægt að nota skortinn á fingraförum sem sönnun fyrir að Tom hafi ekki tekið umslagið upp. Hann gæti alveg hafa tekið það upp án þess að skilja eftir fingraför. Það skipti máli hvernig sé tekið á hlutum, hversu fast og hvort fólk sé sveitt á fingrunum.