Í samtali við kínverska dagblaðið Global Times, sem er stýrt af kommúnistastjórninni, sagði Wang Guangfa, prófessor í lungnasjúkdómum við háskóla í Peking, að hugsanlega hafi veiran átt upptök sín á Spáni. Það styður hann með því að nýlega var skýrt frá því að leifar af veirunni hefðu fundist í skólpi í Barcelona frá því í mars á síðasta ári. Það er löngu áður en fyrsta tilfellið greindist í Wuhan.
Alþjóðlegir sérfræðingar hafa gagnrýnt niðurstöður spænsku rannsóknarinnar og segja hana ekki marktæka. Francois Balloux, forstjóri UCL Genetics Institute í Lundúnum, hefur til dæmis sagt að líklegast sé að sýni hafi víxlast eða blandast.
Kínverjar beina nú sjónum sínum að Spáni og má kannski skoða það í ljósi þess að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO sendir fljótlega sérfræðingateymi til Kína en það á að reyna að komast að hvar kórónuveiran, sem hefur nú orðið rúmlega hálfri milljón manna að bana, átti upptök sín.
Kínversk stjórnvöld telja ekki rétt að beina rannsókninni bara að Kína og vilja einnig að álíka rannsóknir fari fram í öðrum löndum.