Þeir verða þá að yfirgefa Bandaríkin eða skrá sig í skóla þar sem þeir geta sótt kennslustundir á hefðbundinn hátt. Þessar nýju reglur auka á þrýstinginn á skóla og háskóla um að taka upp hefðbundna kennslu á ný á sama tíma og smitum meðal ungs fólks fer fjölgandi. Margir skólar og háskólar, þar á meðal Harvard, hafa alfarið skipt yfir í fjarkennslu síðan heimsfaraldurinn skall á.
Donald Trump, forseti, er sagður krefjast þess að skólar og háskólar taki upp hefðbundna kennslu á nýjan leik eins fljótt og auðið er. Eftir að ICE kynnti þessar nýju reglur tísti hann að allir skólar verði að hefja hefðbundna kennslu í haust.
Reglurnar munu valda mörgum erlendum námsmönnum miklum vandræðum en margir þeirra eru fastir í Bandaríkjunum vegna heimsfaraldursins.
Í reglum ICE kemur fram að engar undantekningar verði gerðar á þeim og varðar þá engu þótt skólar neyðist til að taka upp fjarkennslu vegna faraldursins. Ekki kemur fram hvað verður gert í málum þeirra sem ekki komast heim vegna faraldursins.
Um 1.500 íslenskir námsmenn í Bandaríkjunum eru á skrá LÍN að því er kemur fram í frétt RÚV. Ákvörðun bandarískra stjórnvalda mun einnig hafa áhrif á þá og þeir neyðast til að halda heim á leið ef aðeins er boðið upp á fjarkennslu í skólum þeirra.