Ekki nóg með að fólki sé fyrirskipað að halda sig innandyra heldur munu lögreglumenn standa vörð um blokkirnar allan sólarhring til að tryggja að útgöngubannið verði virt og að enginn komist inn í þær.
The Sydney Morning Herald skýrir frá þessu. Melbourne er í Viktoríufylki og það er Daniel Andrews, forsætisráðherra fylkisins, sem hefur í samráði við borgaryfirvöld ákveðið að grípa til þessara hörðu aðgerða.
Í blokkunum búa um 3.000 manns. 23 hafa greinst með kórónuveiruna að undanförnu og koma þeir úr 12 fjölskyldum.
„Enginn fer inn og enginn fer út.“
Sagði Andrew á fréttamannafundi og sagði að ástæðan fyrir þessum hörðu aðgerðum sé að fólk búi svo þétt í blokkunum að mikil smithætta sé í þeim, það þýðir að veiran geti „breiðst út eins og sinueldur“ sagði hann.
Hann sagði að íbúar blokkanna verði í sóttkví í fimm daga hið minnsta en það er sá tími sem það tekur að taka sýni úr öllum íbúum og rannsaka þau. Hann sagði að þegar niðurstöðurnar liggja fyrir verði staðan metin á nýjan leik.
The Sydney Morning Herald segir að minnst 500 lögreglumenn muni vakta blokkirnar, bæði inni í stigagöngum og utanhúss.
Sóttkvíin er liður í umfangsmiklum aðgerðum yfirvalda til að reyna að stemma stigum við útbreiðslu veirunnar en að undanförnu hefur smitum farið fjölgandi í fylkinu. Á laugardaginn greindust 108 smit sem er það mesta sem hefur greinst á einum degi síðan 28. mars.