„Frestum kosningunum til að fólk geti kosið almennilega, örugglega og áreiðanlega???“
With Universal Mail-In Voting (not Absentee Voting, which is good), 2020 will be the most INACCURATE & FRAUDULENT Election in history. It will be a great embarrassment to the USA. Delay the Election until people can properly, securely and safely vote???
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) July 30, 2020
Eitthvað á þessa leið skrifaði hann á Twitter og sló því föstu að hættan á kosningasvindli sé mikil og verði til þess að kosningarnar verði þær vafasömustu í sögu Bandaríkjanna.
Markmiðið með því að varpa þessari hugmynd fram er líklega að reyna að virkja stuðningsmenn á erfiðum tíma þar sem Joe Biden, andstæðingur hans í kosningunum í haust, mælist með allt að 10 prósentustiga forskot á Trump.
En segja má að Trump sé hér að takast á hendur „Mission impossible“ svo vísað sé í hasarmyndirnar góðkunnu með Tom Cruise í aðalhlutverkum. Ástæðan er að þingið þarf að samþykkja frestun á kosningum. Demókratar eru með meirihluta í fulltrúadeildinni og þeim mun væntanlega ekki hugnast að fresta kosningunum.
Samkvæmt lögum frá 1845 á að kjósa forseta fyrsta þriðjudaginn í nóvember fjórða hvert ár. Í ár fellur þessi dagur á 3. nóvember. Það þarf meirihluta í báðum deildum þingsins til að breyta þessum lögum og eins og fyrr sagði eru Demókratar í meirihluta í fulltrúadeildinni og geta því stöðvað slíkar tillögur.
En ef svo færi að þeir myndu samþykkja þetta þá er aðeins hægt að fresta kosningunum í skamman tíma því stjórnarskráin kveður á um að kjörtímabil forseta megi aðeins vara í fjögur ár. Það þýðir að 20. janúar 2021 rennur kjörtímabil Trump út og hann getur ekki setið áfram á forsetastóli nema hann nái endurkjöri. Frestun kosninga breytir engu um þetta.