Jenny Durkan, borgarstjóri, skýrði frá þessu á Twitter í nótt.
Öryggissveitirnar voru sendar til Seattle í síðustu viku til að verja byggingar í eigu alríkisins fyrir hugsanlegum skemmdarverkum í tengslum við mótmæli. Þetta var gert eftir að dómshús í Portland í Oregon skemmdist þegar mótmælendur réðust á það.
Durkan var frá upphafi mótfallin komu öryggissveitanna því borgaryfirvöld höfðu ekki samþykkt að þær kæmu til borgarinnar. Hún taldi einnig að vera öryggissveitanna gæti kynt undir skemmdarverkum á eignum alríkisins í borginni.
Í tísti sínu í nótt sagði hún að ráðuneyti þjóðaröryggis hafi tilkynnt henni að öryggisveitirnar væru farnar frá Seattle.
Sveitirnar hafa verið sendar til nokkurra borga að fyrirmælum Donald Trump, forseta, til að takast á við það sem hann hefur sagt vera vinstrisinnaða hryðjuverkamenn en aðrir segja vera fólk sem mótmælir ofbeldisverkum lögreglunnar og kynþáttahatri. Sveitirnar hafa aðeins verið sendar til borga þar sem Demókratar eru við stjórnvölin en flestir telja að þessar aðgerðir Trump séu einfaldlega liður í kosningabaráttu hans enda bara um þrír mánuðir þar til forsetakosningar fara fram. Hann vilji með þessu sýna að hann sé staðfastur forseti sem leggi mikla áherslu á að halda uppi lögum og reglu. En þetta virðist vera mjög tvíbent aðgerð og virðist ekki hafa styrkt stöðu Trump meðal almennings.