Það verður því ekki fyrr en í júlí 2021, í fyrsta lagi, sem starfsfólkið snýr aftur á skrifstofur sínar. Sundar Pichai, forstjóri Google, tók þessa ákvörðun í síðustu viku en aðeins lítill hluti starfsfólksins hefur fengið skilaboð um þetta fram að þessu.
Það er sagt hafa haft áhrif á ákvörðunina að stjórnendur fyrirtækisins hafa samúð með starfsfólki með fjölskyldur sem fer inn í óvissutíma í haust og vetur hvað varðar kennslu barna. Hjá mörgum stefnir í að um fjarkennslu verði að ræða.
Áður hafði verið ákveðið að starfsfólkið ætti að vinna heima þar til í janúar.
Þessi ákvörðun nær til flestra skrifstofa Google, til dæmis höfuðstöðvanna í Mountain View í Kaliforníu, annarra skrifstofa í Bandaríkjunum og skrifstofa í Bretlandi, Indlandi og Brasilíu svo nokkrar séu nefndar.
Google, eins önnur stór tæknifyrirtæki, sendi starfsfólk sitt heim í mars en gengur lengra en hin með þessari ákvörðun sinni. Microsoft hefur til dæmis tilkynnt starfsfólki í New York að það muni væntanlega snúa aftur á skrifstofur sínar í haust.